154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

öryggi Íslands með áherslu á norðurslóðir.

[14:42]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir frumkvæðið að þessari mikilvægu umræðu. Öryggishorfur á norðurslóðum hafa auðvitað gjörbreyst á undanförnum árum. Innrás Rússa í Úkraínu hefur þegar sett mikið mark á samstarf um svæðið. Aukið samstarf Rússa og Kínverja á norðurslóðum er síðan sannarlega áhyggjuefni, en Kína skilgreinir sig sjálft sem næstum norðurslóðaríki, eins hlægilegt og það nú er. Það hefur líklegast aldrei verið eins mikilvægt að lýðræðisríkin á norðurslóðum styrki samvinnu um öryggis- og varnarmál. Virkt eftirlit og viðvera NATO á þessu svæði er þannig gríðarlega mikilvæg. Stærsta æfing NATO síðan í kalda stríðinu hefur enda átt að senda skilaboð um sterkar og trúverðugar varnir fyrir Norður-Atlantshaf og norðurslóðir. Áhugi á svæðinu og mikilvægi svæðisins hefur líka breyst á undanförnum árum.

Þó er ljóst að það er skarð í vörnum NATO á þessu svæði, m.a. vegna vangetu norðurslóðaríkjanna. Sérfræðingar hafa bent á að þessar þjóðir skorti mikilvægan búnað sem hafi raunverulegan fælingarmátt. Fyrir því eru ýmsar ástæður sem ekki gefst tími til að fara nánar út í, en við verðum að vera meðvituð um það á þessu svæði að Rússar gætu vel nýtt sér þetta skarð.

En eru varnir nægjanlega tryggðar á norðurslóðum? Hæstv. utanríkisráðherra fór yfir gott samstarf við Bandaríkin á þessu sviði sem rímar vel við upplifun mína og reynslu úr utanríkisráðuneytinu. Ljóst er að við verðum að halda áfram að auka verulega framlag okkar til öryggis- og varnarmála og halda áfram að styrkja samstarf okkar við líkt þenkjandi ríki á svæðinu. Ég tek þar heils hugar undir með hæstv. utanríkisráðherra. Með því leggjum við okkar af mörkum til friðar og stöðugleika.